Blóðsykurmæling og flotkerti

Hinn árlegi Ljósadagur var haldinn á Laugarvatni 26. nóvember síðastliðinn með hefðbundnu fyrirkomulagi.

Endranær tók Lions þátt með ókeypis blóðsykurmælingu fyrir gesti og gangandi. Mælingunni hefur verið mjög vel tekið og margir sem nýta tækifærið og láta mæla sig. Blóðsykurinn reyndist almennt í góðu lagi en ein kona mældist frekar ofarlega og var henni ráðlagt að láta athuga það betur.

Lions tendraði svo jólaljósin í Bjarnalundi eins og fyrri ár. Við það tilefni hélt Snæbjörn Þorkelsson stutta ræðu og þótti takast vel til. Eftir Bjarnalund er haldið niður að vatni þar sem flotkertunum sem klúbburinn selur á jólamarkaðnum er komið á flot undir ljúfri tónlist.

FacebookTwitterGoogle+Emailtumblr

Haustferð

Klúbbnefndin hefur nú setið með sveitta skalla og bólgnar tær við að upphugsa hina fullkomnu haustferð. Til allrar hamingju þá tókst það og munum við því fara í hina fullkomnu haustferð í lok mánaðarins.

Sendur hefur verið póstur með ferðatilhögun og upplýsingum um hvar skal skrá sig.

Húrra!

FacebookTwitterGoogle+Emailtumblr

Skyndihjálparnámskeið

Skyndihjalparnamskeið-Lkl

Mánudaginn 27. apríl mun Lionsklúbbur Laugardals standa fyrir stuttu námskeiði í skyndihjálp sem haldið verður í ÍKÍ (Íþrótta- og heilsufræði HÍ). Leiðbeinandi verður Hafþór B. Guðmundsson lektor við Íþróttafræðibrautina.

Að kunna réttu handtökin þegar neyð ber að getur skipt sköpum og oftar en ekki er það einhver nákominn þér sem þarf á tafarlausri aðstoð að halda vegna slyss eða skyndilegra veikinda. Á þessu 2. tíma námskeiði verður farið yfir grunnatriði, svo sem  bráðasjúkdóma,slys,veikindi, endurlífgun, blásið verður í dúkkur og þær hnoðaðar, hjartastuðtæki prófað o.fl.

Námskeiðið verður haldið í skólastofu ÍKÍ og hefst kl. 20:00.

Lágmarksþátttaka er 10 manns, en ef fjöldi þátttakenda verður fleiri en 20 þá verður annað námskeið haldið, sem verður auglýst síðar.

Verð er kr. 500,-

Skráningar þurfa að berast í síðasta lagi laugardaginn 25.apríl til Víðis á netfangið vidirp@gmail.com eða í síma 8683036.

FacebookTwitterGoogle+Emailtumblr

Skötuveisla 2014 – Timelaps

Klúbburinn heldur árlega skötuveislu fyrir hvern þann sem þiggja vill þann 23. des. Árið 2014 var engin undantekning og má hér neðar sjá timelaps af veislunni. Batteríið í myndavélinni kláraðist því miður áður en veislan var búin en uppgefin matartími var frá 11:30 – 14:00.
Veisluna sóttu rúmlega 80 manns af öllum aldri en í boði var skata af ýmsum styrkleika sem og saltfiskur fyrir þá sem ekki leggja í skötuna. Reikna má með að saltfiskunnendur hafi þó engu síður þurft að hátta sig utandyra þegar heim kom líkt og skötudýrkendur því lyktin gerir víst engan greinarmun þó bragðlaukar neytandans geri það :)
Pálmi Hilmarsson sá svo um að yngsta kynslóðin hefði næga afþreygingu með borðtennis, bíó sýningu og annarri skemmtun meðan foreldrar nutu sjávarfangsins.

Menntaskólinn að Laugarvatni mun þurfa ræsta vel út eftir veisluna og ekki þykir ólíklegt að lyktnæmir nemendur muni finna leifar skötuangans þegar þeir snúa aftur til náms í byrjun janúar 2015.
Skólinn fær sérstakar þakkir fyrir að hafa aftur gefið okkur aðgang að sínu frábæra eldhúsi og matsal.

Hér má sjá stutt timelaps af skötuveislunni.

FacebookTwitterGoogle+Emailtumblr