nn árlegi Ljósadagur var haldinn á Laugarvatni 29. nóvember síðastliðinn með jólamarkaði, vöfflukaffi, tendrun jólaljósa, kertafleytingu, hlaupandi börnum og hlæjandi fullorðnum. Þennan dag koma margir uppaldir en brottfluttir Laugdælingar heim í dalinn til að skófla í sig vöfflum með fjölskyldu og gömlum vinum.
Þáttaka Lions í deginum er nokkur og á ýmsum sviðum. Á jólamarkaðnum bjóðum við upp á ókeypis blóðsykurmælingu. Mælingunni hefur verið mjög vel tekið og margir sem nýta tækifærið og láta mæla sig. Hörður Bergsteinsson sá um mælinguna í ár og tók um leið blóðþrýstingsmælingu á þeim sem vildu. Blóðsykurinn reyndist almennt góður en nálægt efri mörkum hjá nokkrum. Ein kona mældist mjög ofarlega og var henni ráðlagt að láta athuga það betur.
Seinni partinn sér klúbburinn svo um tendrun jólaljósa á grenitré í Bjarnalundi. Þar hélt Smári Stefánsson smá lestur yfir fjöldanum og í framhaldi söng yngsta kynslóðin jólalög fyrir fjöldan. Eftir Bjarnalund er haldið niður að vatni þar sem flotkertunum sem klúbburinn selur á jólamarkaðnum er komið á flot undir ljúfri tónlist frá DJ Sævari Ást. Það brennur stundum við að veðurguðinn svíki okkur þegar fleytingin fer fram en í ár var veðrið eins og best getur á kosið með sléttu vatni og passlegri golu til að kertin flutu í fallegri halarófu frá bakkanum og út á vatnið. Eftir fleytinguna býður Fontana svo í kaffi og heitt kakó. Svo skemmtilega vill til að innsti koppur í búri hjá Fontana er félagi í Lkl. Laugardals, Sigurður Rafn Hilmarsson, svo líklegt þykir að bæði kaffið og kakóið hafi verið framúrskarandi hvað gæði varðar eins og honum einum er lagið.