25. nóvember 2002

25. nóvember 2002

Rúta fór útaf veginum í svokölluðu stóragili á hálsinum ofan við Laugarvatn. Hún hafði ekki komist upp bratta brekku upp úr gilinu vegna hálku og stöðvaðist ofarlega í henni. Svo vel vildi til að öllum farþegum hafði verið hleypt út úr bílnum en þegar bílstjórinn reyndi að mjaka henni niður brekkuna missti hann vald á henni með þeim afleiðingum að hún fór niður í gilbotn, án þess að velta þó. Vegfarandi sem kom að skömmu síðar lét vita af þessu og skömmu síðar voru komnir nokkrir bílar á staðinn frá Laugarvatni sem voru skipaðir mönnum úr björgunarsveitinni og fleirum. Fólkið var flutt í Menntaskólann þar sem hlúð var að því en engum varð meint af. Leiðsögumaðurinn var mjög hrifinn af hversu fljótt og vel heimamenn brugðust við og margítrekaði þakklæti sitt. Önnur rúta náði í fólkið og þegar hún var farin kom í ljós að einn farþegi hafði gleymst á klósettinu. Við náðum að stoppa rútuna og hendast með farþegann á eftir þeim þannig að allt fór á besta veg

2. febrúar 2002

2. febrúar. 2002

Formaður Ingunnar fékk boð um útkall um klukkan 17:45. Hann hafði samband við formann bílaflokks og bað hann að fara á Fordinum upp að Slúnkaríki að aðstoða fólk í tveimur jeppum sem báðir voru fastir og bilaðir. Þetta voru fyrstu upplýsingar sem komu frá lögreglunni sem reyndust síðar vera kolrangar. Uppúr klukkan 18:00 lögðu af stað Guðmundur B. og Jóhann G. á bílnum með einn vélsleða á pallinum frá Laugarvatni. Á leiðinni kölluðu þeir í Tintron og Biskup, (sem einnig höfðu verið kallaðir út) til að ákveða að hittast við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum og vera í samfloti þaðan. Eftir að hafa beðið góða stund eftir Tintron og Biskup við þjónustumiðstöðina lögðu þessar þrjár sveitir af stað áleiðis inná Kaldadal og síðan inná línuveg. Þegar inná línuveg var komið hafði fram að því verið auður vegur sem er sannarlega óvenjulegt á þessum árstíma. Eftir því sem austar dró eftir línuveginum versnaði færið og veðrið sem var stundum svo slæmt að ekki sá milli bíla. þegar komið var að Tjaldafelli höfðu komið betri upplýsingar um þá sem í vandræðum voru, þá reyndust bílarnir vera þrír og einn af þeim bilaður og hinir fastir. Einnig höfðu bæst í hóp björgunarsveitanna þrír jeppar úr Reykjavík en á þeim voru vinir og vinnufélagar þeirra sem í vandræðum voru, þessir bílar voru mjög vel útbúnir og vel færir um að klára þessa aðstoð án aðstoðar björgunarsveita bílanna þriggja svo það lá beinast við að björgunarbílarnir snéru til síns heima sem og þeir gerðu. Guðmundur og Jóhann komu í hús á Laugarvatni um klukkan 1:30.