Um Sveitina

Björgunarsveitin Ingunn var stofnuð á Laugarvatni þann 15. apríl 1981 af 17 staðarmönnum. Lesningin hér á eftir er tekin upp úr fundarbók Lionsklúbbs Laugardals og var tekin saman af Hilmari Einarssyni lionsfélaga og björgunarsveitarmanni, þarna sést aðdragandinn að stofnun sveitarinnar sem var fyrir tilstuðlan lionsklúbbsins.
—-

33. fundur 09.05.74
 • Rætt um þörf fyrir björgunarbát, vegna bátaleigu.
39. fundur 14.11.74
 • Rætt um björgunarbátinn, hvort ekki væri rétt að afhenda hann einhverjum ábyrgum aðila.
41. fundur 12.12.74.
 • Árni formaður hóf umræður um björgunarbát, og bað um að félagar létu í sér heyra varðandi fyrirhugaða geymslu hans og eign. Einnig bað hann menn að velta því fyrir sér, hvort klúbburinn ætti að kaupa björgunarbúnað ýmis konar, þótt ekki væri hér eiginleg björgunarsveit fyrir hendi og væri þá þessi björgunarbúnaður tiltækur ef á fyrfti að halda.
 • Hilmar gerði stuttlega grein fyrir hugmyndum sínum varðandi björgunarbátinn.
 • Taldi hann m.a. að þeir er þjálfaðir yrðu til starfa við bátinn yrðu þeir hinir sömu og sæu um slökkviliðsbíl hreppsins. Þeirri spurningu þyrfti einnig að svara, hvort nota ætti bátinn einungis sem björgunarbát er geymdur væri uppi í slökkvistöð og þangað sóttur ef með þyrfti eða hvort hann yrði notaður sem eftirlitsbátur og þá geymdur niður við vatn.
 • Var þetta að nokkru rætt og meðal annars bent á að nú væri engin aðstaða fyrir hendi til geymslu bátsins við vatnið en úr því mætti þó líklega bæta.
 • Árni formaður taldi að báturinn yrði fyrst og fremst notaður sem björgunarbátur en ekki sem einhvers konar varðskip til að eltast við t.d. drukkna menn.
 • Umræður spunnust einnig um það hvort klúbburinn héldi áfram að vera eigandi bátsins.
 • Kristinn tók undir þá hugmynd er komið hafði fram á stjórnarfundi að hreppnum yrði báturinn gefinn ef hreppur þæði. Taldi hann og aðrir rétt að klúbburinn héldi áfram að styðja alla þá viðleitni er stefndi að því að efla björgunaraðstöðu hér á stað.
 • Fannst mönnum ekki ástæða til að gjöf klúbbsins til hreppsins, ef úr yrði, fylgdu skilyrði en tilmæli og ábendingar yrðu áreiðanlega ekki illa þegnar af hreppsnefndinni.
 • Í framhaldi af þessum umræðum var rætt um hættur ýmsar er væru fyrir hendi hér að Laugarvatni, og vakir á vatninu hér nefndar m.a.
 • Frekari umræðum um björgunarbát var nú frestað til næsta fundar og ósk kom fram um frekari umræður síðar um björgunarsveit og stofnun hennar hér á stað.
42. fundur 09.01.75.
 • Alllangar umræður fóru fram um björgunarbátinn. Sýndist þar sitt hverjum en engum hnútum var hreytt. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að báturinn yrði afhentur hreppnum og einnig var að lokum fallist á eftifarandi tillögu:
 • Lionsklúbbur Laugardals samþykkir að afhenda Laugardalshrepp til eignar og umráða björgunarbát ásamt utanborðsmótor og öðrum tilheyrandi björgunarbúnaði.
 • Bátinn skal varðveita á Laugarvatni.
45. fundur 27.02.75.
 • Var nú komið að því að afhenda skyldi hreppsnefnd björgunarbát þann er Lionsmenn höfðu beitt sér fyrir að keyptur yrði.
 • Árni formaður rifjaði upp og lýsti stuttlega aðdragandanum að kaupum þessum og því að Lionsmenn höfðu átt frumkvæði að söfnun fjár til þessara kaupa. Kom þar fram að hvarvetna var vel brugðist við umleitun klúbbfélaga vegna þessa máls.
 • Sameignir skólanna afhentu kr, 60.000,- til kaupanna, hreppsfélagið kr, 50.000,- Edduhótelin hér á staðnum kr, 20.000,-. Lionsklúbburinn lagði síðan fram það er á skorti, en björgunarbáturinn og útbúnaður allur er Árni lýsti vandlega, kostaði kr, 142.817,-.
 • Það kom einnig fram að Slysavarnafél.Ísl. gaf 4 björgunarbelti er bátnum skyldu fylgja.
 • Bað Árni nú Þórir Þorgeirsson oddvita hreppsnefndar að veita viðtöku gjafabréfi því er báti og búnaði fylgdi og vísaði hér til samþykktar Lionsfélaga frá 9. Febrúar síðastliðnum..
 • Þórir ávarpaði félaga sína og sveitunga og þakkaði gjöfina fyrir hönd hreppsfélagsins.
 • Kvaðst hann vita að hreppsnefndarmenn vildu allir sem einn stuðla að því að gjöf þessi yrði vel varðveitt og hennar gætt á þann hátt að hún mætti koma að sem mestu liði, ef til þyrfti að grípa.
 • Árni skýrði frá því að þeim aðilum er höfðu látið fé af hendi rakna vegna kaupanna á útbúnaði þessum yrði ritað og þeim gerð grein fyrir kaupunum og ráðstöfun hins keypta.
56. fundur 11.12.75.
 • Árni skólastjóri mynnti á að það hefði alloft verið rætt á síðasta starfsári að klúbburinn stæði fyrir stofnun björgunarsveitar og taldi nauðsinlegt að koma því máli áfram.
 • Félagar í björgunarsveit þyrftu að vera þannig þjálfaðir að þeir vissu að hverju þeir ættu að ganga hverju sinni. Hann benti á að boðuð æfing hjá slökkviliði hefði verið illa sótt og þeir sem hana boðuðu óhressir.
 • Þórir Þorgeirsson sagðist hafa sótt um framlag frá sýslunni til björgunarsveitar og fengið kr, 35.000,-
 • Athugasemd frá Árna skólastjóra, að stjórninni hefði verið falið að vinna að stofnun björgunarsveitar.
57. fundur 08.01.76
 • Það kom fram að á stjórnarfundi 7. janúar ´76 hefði verið samþykkt og talið rétt að klúbburinn stuðlaði að stofnun björgunarsveitar hér í hreppnum. Hinsvegar væri klúbburinn ekki stofnandi sveitarinnar sem slíkur.
 • Árni skólastjóri og Hilmar Einarsson taka að sér fyrstu framkvæmd málsins.
61. fundur 11.03.76
 • Spurt var hvernig gengi með stofnun björgunarsveitar.
 • Árni skólastjóri skýrði frá því að hann væri búinn að hafa samband við Hannes Hafstein hjá Slysavarnarfélaginu vegna þessa máls, og myndu hann og Hilmar fara bráðlega og ræða við Hannes um stofnun björgunarsveitar hér.
 • Eins hefði Hilmar haft samband við sveitina á Selfossi.
 • Þeir hefðu talið nokkur vandkvæði á að stofna hér slíka sveit.
 • Sérstaklega vegna nauðsynlegs tækjabúnaðar sem væri mjög dýr og erfitt að afla fjár sem þyrfti. Þetta mál var nokkuð rætt á fundinum og virtust klúbbfélagar á einu máli með að björgunarsveit yrði stofnuð hér, sem reyndi þá að eignast tæki eftir því sem fjárhagur leyfði hverju sinni. Sjálfsagt væri að leita til hreppsins og stofnanna hér um aðstoð til tækjakaupa og annars.
63. fundur 08.04.76.
 • Hilmar skýrði frá fundi sem hann og Árni skólastjóri áttu með Hannesi Hafstein forstöðu- manni Slysavarnarfél. Ísl. um stofnun björgunarsveitar innan þessa hrepps.
 • Hann hefði tekið því máli vel og væri ákveðið að boða til fundar fljótlega eftir páska, þar sem Hannes Hafstein mundi mæta og einhverjir frá björgunarsveitinni á Selfossi.
 • Þar yrði sennilega valinn einhver kjarni manna fyrir björgunarsveit hér.
72. fundur 09.12.76
 • Eiríkur spurðist fyrir um stofnun slysavarnardeildar á Laugarvatni og einnig hvert ætti að leita ef slys bæri að höndum.
 • Svaraði Hilmar þeirri fyrirspurn og sagði að búið væri að stofna slysavarnardeild og svo útfrá henni yrði væntanlega stofnuð björgunarsveit.
 • Hilmar sagði að best væri að leita til slökkviliðsins eða annara forráðamanna á staðnum varðandi slys.
75. fundur 10.02.77
 • Hilmar sagði að björgunarsveitina vantaði ljós. (leitarljós)
77. fundur 10.03.77
 • Eiríkur spurði um stofnun björgunarsveitar.
 • Hilmar sagði að ekkert hefði skeð í þeim efnum vegna mikilla anna.
 • Eiríkur taldi að þörf væri á að stofna hana fyrir sumarið.
88. fundur
 • Eiríkur gerði fyrirspurn um það hvað gengi um stofnun björgunarsveitar.
 • Hilmar sagði að slökkviliðsmönnum hreppsins væri ætlað þetta starf a.m.k. þar til fastari skipan yrði komið á þessi mál.
 • Þórir taldi að þetta þyrfti að athuga fljótlega og kalla saman fund.
 • Árni taldi að skipuleggja þyrfti vel allt björgunarstarf og afla tækja þar til.
 • Kristinn gerði þá athugasemd hvort búnaður væri til staðar, t.d. sjúkrabörur, talstöðvar ofl.
 • Óskar Ólafsson mynnti á að uppdrættir af nágrenni okkar væru nauðsynlegir.
 • Þá kom fram að sveitin væri ef til vill liðfá til víðtækra björgunarstarfa en bent á að meðan skólarnir störfuðu hefðu þeir nokkuð þjálfað lið.
 • Þórir ýtrekaði að endurskoða þyrfti þessi mál.
104. fundur 08.02.79
 • Halldór vildi kanna kaup á leitarljósum.
 • Bejamín taldi vasaljós betri.
 • Terry vildi kanna kaup á vélsleða, taldi hann heppilegan til leitar að vetri til.Grétar tók í sama streng, vissi um tvö hreppsfélög sem sameinuðust um sleða og það hefði tekist vel.
 • Þá var talið að ef af yrði ætti að ath. samvinnu hjá hreppsfélögum eða fjallskilasjóðum o.fl.
114. fundur 13.12.79.
 • Árni sagðist hafa kannað kaup á leitarljósum vegna uppástungu sem fram hefði komið um slík ljós. Sagði hann að slík ljós með axlaról og 8 rafhlöðum kostuðu 8 – 9 þús.kr.
 • Hann pantaði 8 – 10 ljós með fyrirvara þó.
 • Kaup á ljósunum voru samþykkt.
 • Síðan vakti Árni máls á björgunarsveit hér á staðnum.
 • Voru allir sammála um að slík sveit væri nauðsynleg, en skiptar skoðanir voru um hvernig hún skyldi rekin og voru um það langar og snarpar umræður sem ritara tókst ekki að festa á blað.
118. fundur 28.02.80.
 • Árni skólastjóri sagði frá leitarljósum og sagði kröfu komna upp á 183.000,- kr.
 • Sýndi Árni þessi ljós ásamt vasaljósi sem slökkvilið nota mikið og fást hjá sama fyritæki og leitarljósin eru keypt frá.
119. fundur 13.03.80.
 • Varðandi leitarljósin sagði Árni að hreppsnefnd hefði samþykkt að kaupa helming ljósanna og mundi skökkviliði verða falið að sjá um þau.
129. fundur 11.12.80.
 • Formaður sagði að á stjórnarfundi hefði verið samþykkt að til nefna þriggja manna nefnd til að annast undirbúning stofnunar björgunarsveitar í hreppnum og skyldi hún skila áliti eigi síðar en á fyrri fundinum í febrúar.
 • Árni skólastjóri þakkaði stjórninni frumkvæði og áræði í þessu máli. Kvað málið hafa verið að velkjast milli manna í nokkur ár. Taldi björgunarsveit nauðsynlega, væri t.d. langt til læknis svo menn þyrftu að kunna á þau tæki sem hér væru til.
 • Eiríkur tók einnig jákvæða afstöðu til stofnunar björgunarsveitar. Hann taldi að slökkviliðið hefði sinnt þessu hingað til.
 • Þriggja manna nefndin var því valin:
 • Formaður, Árni skólastjóri og meðnemdarmenn þeir Hilmar Einarsson og Halldór Benjamínsson.
130. fundur 08.01.81.
 • Eiríkur óskaði eftir fréttum frá björgunarsveitar nefnd.
 • Árni skólastjóri hvað nefndina mundi halda fund á næstu dögum.
 • Hann taldi ástand síðustu daga hafa staðfest knýjandi þörf til úrbóta.
132. fundur 12.02.81.
 • Árni á Laugarvatni sagði frá störfum björgunarsveitarnefndar.
 • Hann sagði að öryggismál hefðu oft verið rædd á fundum Lionsmanna á liðnum árum.
 • Klúbburinn aflaði peninga til kaupa á björgunarbát sem hreppsnefnd var afhent árið 1975.
 • Þá var að frumkvæði klúbbsins stofnuð hér slysavarnardeild árið 1976.
 • Formaður hennar Hilmar Einarsson kannaði þá áhuga á stofnun björgunarsveitar og reyndist sú könnun neikvæð. ( innskot: þarna er vitnað í álit Tryggvamanna á Selfossi ) Árni kvað þó enga ástæðu til að gefast upp enda væri það ekki í anda Lions. Nefndin var sammála um að leggja til að komið yrði á fót sveit sjálfboðaliða í hreppnum, sem í væru 6 – 12 menn. Um talsvert starf væri að ræða og því þörf á samstæðum starfssömum vinnuhóp. Leita ætti til félagasamtaka um fjárhagslega aðstoð, því hópurinn gæti ekki staðið í fjáröflun.
 • Árni óskaði eftir áliti fundarmanna og bað stjórnina að taka mið af umræðunni.
 • Formaður þakkaði Árna og þeim nefdarmönnum fyrir gott og áhugavert starf og gaf síðan orðið laust. Margir fundarmenn lögðu orð í umræðuna og kom fram almennur stuðningur við tillögu nefndarinnar.
 • Formaður óskaði eftir að nefndin starfaði áfram með stjórninni til frekari aðgerða í þessu mikilvæga máli.
133. fundur 26.02.81.
 • Formaður greindi frá fundi er stjórn klúbbsins átti með Lionsmönnum þeim er sæti eiga í hjálparsveitanefnd klúbbsins. Þar var samþykkt að kynna hugmyndina um stofnun hjálparsveitar fyrir formönnum kvenfélagsins, búnaðarfélagsins og ungmennafélagsins, og leita eftir stuðningi þessara samtaka við hjálparsveitina. Þeir Lionsmenn er hug hefðu á að starfa í slíkri sveit gefi sig fram við nefdarmenn. Stjórn klúbbsins óskaði eftir að hjálparsveitarnefndin starfi áfram enn um hríð.
134. fundur 12.03.81.
 • Árni á Laugarvatni, formaður björgunarsveitarnefndar sagðist vera búinn að hafa samband við formenn félagasamtaka í hreppnum um stuðning við væntanlega björgunarsveit.
 • Voru undirtektir jákvæðar og má telja víst að kvenfélagið, lionsklúbburinn og hreppsnefnd styðji björgunarsveitina fjárhagslega.
 • Árni á Böðmóðsstöðum formaður Búnaðarfélagsins sagðist mundi leggja þetta mál fyrir búnaðarfélagsið á næsta fundi og taldi víst að félagið mundi leggja málinu lið.
 • Nokkrar umræður urðu um þetta mál, m.a. lagði Benjamín til að hreppsnefnd legði ekki útsvar á Lionsfélaga á þessu ári svo þeir gætu betur stutt hina verðandi björgunarsveit.
 • Einnig kom fram að þegar væru 7 Lionsfélagar fúsir til að starfa í sveitinni.
 • Í lokin bar formaður upp tillögu um að fá formlega fundarsamþykkt Lionsklúbbsins um stuðning við björgunarsveitina. Samþykkt samhljóða.
137. fundur 30.04.81.
 • Árni sagði frá því að björgunarsveit hefði verið stofnuð 15. apríl síðast liðið.
  Voru stofnendur 17.
 • Stjórnina skipa Snæbjörn Sigurðsson, Hilmar Einarsson og Árni Guðmundsson Laugarvatni.
 • Árni gat þess að björgunarsveitinni hefði þegar verið afhent leitarljós.
Saman tekið af Hilmari Einarssyni, Lionsfélaga og björgunarsveitarmanni.