Samstarfssamningur

Samstarfssamningur milli Bláskógabyggðar og Björgunarsveitarinnar Ingunnar

Sveitarfélagið Bláskógabyggð (sveitarfélagið) og Björgunarsveitin Ingunn (Ingunn) gera með sér svofelldan samning um eflingu öryggis- og hjálpar- og æskulýðsstarfs í sveitarfélaginu:

1. gr.
Samningi þessum er ætlað að efla samstarf milli sveitarfélagsins og Ingunnar og tryggja öflugt öryggis- og hjálpar- og æskulýðsstarf í sveitarfélaginu.  Samningnum er ætlað að tryggja enn frekar starfsemi Ingunnar, enda er sveitarfélagið þeirrar skoðunar að Ingunn sinni öflugu og viðurkenndu hjálpar- og björgunarstarfi.

2. gr.
Öll samskipti sveitarfélagsins við Ingunni fara fram við yfirstjórn félagsins.

3. gr.
Samstarfssamningurinn felur í sér styrk frá sveitarfélaginu til Ingunnar að fjárhæð kr. 500.000,- á ári sem skal bundinn vísitölu neysluverðs án húsnæðis m.v. 1. apríl 2006. Skal styrknum varið til eflingar öryggis- og hjálpar- og æskulýðsstarfs í sveitarfélaginu.  Félagið skal leitast við að efla gæði starfseminnar til hagsbóta fyrir íbúa og ferðamenn innan sveitarfélagsins.

4. gr.
Taki Ingunn að sér önnur verkefni á vegum sveitarfélagsins, en áætlun gerir ráð fyrir sbr. 5. gr., greiðir sveitarfélagið félaginu fyrir það, óháð samningi þessum. Skal sú greiðsla mæta kostnaði vegna viðkomandi verkefnis annars vegar og vera þóknun til félagsins hins vegar.

5. gr.
Fyrir lok október ár hvert skulu aðilar, sveitarfélag og Ingunn, vera búnir að  gera verkefnaáætlun um hvernig styrkfjárhæð verður varið, enda falli þau verkefni að markmiðum samnings þessa.

6. gr.
Ingunn skuldbindur sig til að skila ársreikningi félagsins til sveitarfélagsins, eigi síðar en viku eftir aðalfund félagsins, ár hvert. Til viðbótar ársreikningi skal fylgja ítarleg skýrsla um nýtingu fjármunanna og annáll yfir starf félagsins.

7. gr.
Greiðsludagar styrks skv. 3. gr. skulu vera eftirfarandi:
15. maí og 15. desember.  Skili félagið ekki skýrslum á tilskildum tíma stöðvast greiðslur til þess þar til þær hafa verið lagðar fyrir stjórn sveitarfélagsins.

8. gr.
Samningur þessi gildir ótímabundið.  Hvor samningsaðili getur sagt samningnum upp eða óskað endurskoðunar á honum með 6 mánaða fyrirvara, en þó ekki fyrr en að 12 mánuðum liðnum frá gildistöku hans.

9. gr.
Um frekari fjárveitingar til Ingunnar verður ekki að ræða á samningstímanum, sbr. þó ákvæði 4. greinar.

10. gr.
Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum og heldur hvor samningsaðili sínu eintaki.  Til staðfestingar undirrita samningsaðilar samning þennan í viðurvist tveggja vitundarvotta.