Skötuveisla Lions

Skötuveisla Lkl. Laugardals
Þann 23. desember síðastliðinn hélt Lkl. Laugardals í annað sinn skötuveislu sína fyrir gesti og gangandi. Veislan var haldin í matsal Menntaskólans að Laugarvatni og fór ákaflega vel fram en um 70 manns komu til að njóta matarins í góðum félagsskap. Á boðstólnum var fyrstaflokks skata sem og saltfiskur fyrir þá sem það heldur vildu ásamt öllu nauðsynlegu meðlæti. Allir þeir félagsmenn sem vetlingi gátu valdið mættu til að leggja hönd á plóg en í klúbbnum ríkir ákaflega líflegur og skemmtilegur andi og því mjög auðsótt að fá félagsmenn til starfa. Sölvi Arnarsson síðameistari fékk titilinn yfirkokkur og stýrði hann undirmönnum sínum með harðri hendi en þó með bros á vör. Þeir sem ekki höfðu sérstakt verkefni í eldhúsi hentust um matsalinn í svörtum buxum og hvítri skyrtu með bindi og fylgdust með að þar færi allt fram samkvæmt ströngustu gæðakröfum klúbbsins og formaðurinn sjálfur, Hilmar Einarsson, sat stoltur við hlið nýja stóra klúbbfáns og seldi inn.
Miðað við ánægju matargesta má telja nokkuð víst að þessi skötuveisla sé nú orðin að árlegum viðburði í Laugardalnum.

Rúnar Gunnarsson, Lkl. Laugardals.

Facebook0Twitter0Google+0Emailtumblr