Forvarnarstefna UMFL

Frá upphafi hafa stjórnendur Ungmennafélags Laugdæla áréttað að hver félagsmaður skuli vera fyrirmynd annarra þá sérstaklega barna sem stunda íþróttir innan félagsins. Stjórnin leitast eftir að hafa skýra afstöðu gegn vímuefnum í tengslum við íþróttastarf og áréttar að neysla vímuefna á ekki samleið með íþróttum og getur haft slæm áhrif á árangur hver svo sem greinin er.

Aukið framboð vímuefnagjafa kallar á aukna fræðslu innan félagsins og er mikilvægt að þjálfarar fræði iðkendur félagsins um skaðsemi þessara efna  og sýni gott fordæmi á skemmtunum bæði inann og utan starfs félagsins.

Markmið okkar eru:

  • Að banna notkun vímuefnagjafa á samkomum sem fram fara á vegum félagsins þar sem börn og unglingar eru þátttakendur.
  • Að notkun tóbaks verði stranglega bönnuð í og við íþróttamannvirki Bláskógabyggðar.
  • Að fyllsta öryggis sé gætt, það er að þjálfarar hafi einhverja kunnáttu í skyndihjálp og aðbúnaður sé eins og best verður á kosið í starfi á vegum félagsins.
  • Að þjálfarar séu jákvæð fyrirmynd og kenni iðkendum félagsins ábyrgðarfulla hegðun innan sem og utan íþróttastarfs.
  • Að þjálfarar hafi reynslu/menntun til þess að sinna þjálfun og séu í stakk búnir að bregðast við hinum ýmsu uppákomum í tengslum við starf félagsins.
  • Að félagið setji sér reglur og/eða marki sér stefnu í forvarnarmálum samkvæmt stefnu ÍSÍ.

Það er okkar vilji að skila af okkur sterkum, sjálfsöruggum og sjálfstæðum einstaklingum og til þess að ná sem bestum árangri þurfa félög innan Bláskógabyggðar að standa saman ásamt foreldum og skólayfirvöldum. Eitt af okkar markmiðum er að bjóða upp á íþróttastarf fyrir alla aldurshópa og hafa starf okkar sem fjölbreyttast.  Ungmennafélagsandinn er í hávegum hafður og viljum við stuðla að aukinni almennri þátttöku bæði í íþrótta- og félagsstarfi án sérstakrar á herslu á keppni.

Laugarvatni, 14. desember. 2010.