Um félagið

Saga UMFL

Ágrip af sögu Ungmennafélags Laugdæla.
Söguágrip frá Kjartani Lárussyni

Stofnun og upphafsár.

Ungmennafélag Laugdæla var stofnað 5.mars 1908 og var aðalhvatamaðurinn Indriði Guðmundsson síðar bóndi í Laugarvatnshelli, hann kom þá austur að Laugarvatni frá höfuðborginni og stjórnaði stofnfundi félagsins. Hann hafði þá áður staðið að stofnun U.M.F. Hvatar í Grímsnesi og U.M.F. Aftureldingar í Mosfellsbæ. Fyrsta stjórn félagsins var skipuð þeim Böðvari Magnússyni Laugarvatni sem formanni, Páli Guðmundssyni á Hjálmsstöðum sem ritara og Ingvari Grímssyni Laugardalshólum sem gjaldkera. 1909 varð Jón Þorvarðarson á Laugarvatni, síðar Laugarvatnsvöllum formaður og starfaði hann samfellt í stjórn félagsins til 1922, lengst af sem ritari. Um svipað leyti og Ungmennafélag Laugdæla var stofnað gaf Ungmennafélag Íslands út skuldbindingaskrá og var samþykkt að þeir sem væru í félaginu gengust undir hana. Til gamans má geta þess að ein skuldbindingin var svohljóðandi: Ég undirritaður lofa því og legg við drengskap minn að á meðan ég er í þessu félagi skal ég ekki drekka neina áfenga drykki, né verða þess vísvitandi valdandi að öðrum séu þeir veittir.

Systkinin frá Eyvindartungu, Þorsteinsbörn voru mjög virk á fyrstu árum félagsins. Magnús var ritari frá 1909 til 1910 og síðan formaður til 1915, Jónína og Jón sátu sv nokkuð í varastjórn og Þorsteinn var aðalfrjálsíþróttamaður félagsins og sigraði bæði í langstökki og 800 metra hlaupi á héraðsmóti Í.S.K. 1913 sem síðar varð H.S.K. til marks um styrkleika hans má benda á að hann á enn næst besta tíma Laugdæla í 800 metra hlaupi. Georg var góður glímumaður, keppti ásamt Kristjóni Kristjónsyni frá Útey í fyrstu drengjaglímu Skarphéðins 1924 og á alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930. Ragnheiður Böðvarsdóttir Laugarvatni tók fyrst kvenna við formannsembætti Laugdæla 1915 og gegndi því í sjö ár með góðum árangri og er nú elsti félagi Laugdæla, 100 ára að aldri. Næsti formaður var Magnús Böðvarsson bróðir hennar sem sat jafn lengi eða til ársins 1929. Fyrstu tuttugu ár félagsins var félagið mjög virkt, lestrarfélag var stofnað og gaf það út Laugdæling frá 1909 og fram undir 1930 og var lesið úr honum á flestum fundum. Það er ekki fyrr en um 1987 að félagið gaf út fréttabréf og breytti í þriðja tbl. 7.árg 1993 í Laugdæling. Samhliða því stofnaði félagið bókasafn sitt og um 1959 voru í safninu um 500 bækur sem síðar varð stofn að hreppsbókasafni sem nú er hluti af bókasafni Menntaskólanns í Héraðsskólahúsinu. Húsbyggingarsjóður var stofnaður árið 1918 til söfnunar fyrir byggingu félagsheimilis. Á þessum árum unnu menn þegnskylduvinnu hjá bændum við slátt og rann andvirði eins dagsverks til félagsins og 1926 var það átta kr. fyrir karlmann og fjórar kr. fyrir konur. Mönnum var skipt niður á bæina og skyldu unnar átta klukkustundir. Á þessum árum enduðu allir fundir með söng, og flestir einnig með dansi, glímu eða spilamennsku. Á nokkrum bæjum voru haldnar skemmtanir í kringum 1920, þar voru færð upp leikrit, lesið upp úr bókum, sungið og dansað fram undir morgun. Um þetta leiti var mikið rætt um gerð sundlaugar. Var hún síðan reist og stóð hún þar sem gróðurhúsin standa núna fyrir ofan Vígðulaugina. Sundlaugin var 200 fermetrar. Einnig lagði félagið fram fé til stofnunar Héraðsskólans. Eingöngu virðast hafa verið haldnir félagsfundir fyrstu árin en engir stjórnarfundir, þar sem stjórnin mætti eingöngu og ræddi málin. Fundarstaðir voru hingað og þangað um sveitina, Snorrastaðir, Eyvindartunga, Laugarvatn, Hjálmsstaðir, Miðdalur og Laugardalshólar svo einhverjir séu nefndir. Í fyrstu voru félagar fáir, Í kringum 10 – 15. Félagafjöldinn fór vaxandi og um 1920 voru 30 – 40 félagar og í dag er meirihluti íbúa dalsins í félaginu. Eitt helsta baráttumál U.M.F.L. alla tíð hefur verið skógrækt. Á fyrstu starfsárum sínum hvatti félagið félagsmenn til að koma upp trjágörðum við sem flesta bæi í sveitinni og sér þess víða merki enn. Á þessum árum var aðallega keppt í glímu og frjálsum íþróttum. Um 1928 með stofnun Héraðsskólans dregur mjög úr starfi félagsins og er það mikið vegna þess að félagslíf í skólanum var mjög mikið. Félagið lifnar aftur um 1940 þegar Andrés Pálsson á Hjálmsstöðum tekur við félaginu en hann var formaður frá 1941 – 1946 og 1953 – 1954 og ritari 1946 – 1947. Jón var formaður 1947 – 1953. Þeir sátu báðir í stjórn í 10 ár hvor á miklum uppgangstímum í félaginu, þeir höfðu greinilega með sér mikið af mjög góðu fólki í félaginu bæði í stjórn og íþróttum.

Uppgangsár.

Um 1945 keypti félagið landspildu úr landi snorrastaða, þar hefur félagið gróðursett tré á síðari árum. Á þessum miðkafla í sögu félagsins er það helst að þeir keyptu hermannabragga 1947 og settu á lóð félagsins þar sem þeir héldu hin frægu braggaböll nokkrum sinnum á ári. Eitt ballið varð frægara en önnur því að þá var þurrkur í sveitinni eins og oft gerist hérí Laugardal og voru ungmennafélagar frekar seinir fyrir þetta kvöld. En þegar þeir mættu á staðinn var búið að stela dansleiknum. Þá höfðu einhverjir óprúttnir náungar selt öllum viðstöddum in á dansleikinn og voru þar er heimamenn komu. Varð mikið uppistand og var samið að félagið fengi hlut af innkomunni á ballið. Það voru mikið stundaðar íþróttir á þessum árum. Aðalgreinin var sund og var Þórir Þorgeirsson þjálfari. Einnig voru frjálsar íþróttir stundaðar í félaginu og var það mjög virkt árin 1945 -1950 og árið 1946 var félagið meðal annars besta íþróttafélagið innan HSK. Einnig var stunduð glíma og átti félagið meðal annars þrjá keppendur í bændaglímunni frægu á Þjórsártúni 1950. Frá 1957 til 1968 er félagið í lægð félagslega en þó voru haldnir einhverjir dansleikir og var t.d. farið í ferðalög í Þórsmörk og Landmannalaugar. Tekið var þátt í þriggjafélagamótum sem er milli ungmennafélaganna í Bisk, Hvatar og Laugdæla og körfuboltinn byrjaði 1964. Frá árinu 1968 til þessa dags má segja að félagið hafi verið mjög virkt þó að alltaf séu einhverjar sveiflur milli ára. Samkomuhald breyttist mjög eftir að Barnaskólinn var byggður og salurinn í kjallaranum var tekinn í notkun. Síðan hafa verið haldin þorrablót en það fyrsta var haldið í Laugardalshólum 1959 og þar á eftir í Miðdal 1960 og 1962 og í barnaskólanum frá 1964 að undanskildum nokkrum árum sem þau voru haldin í Húsmæðraskólanum. Réttarböll hafa verið haldin nokkuð reglulega frá um 1970 þó hafa nokkur dottið upp fyrir. Áramótaböll hafa oftast verið haldin hin síðari ár. Sautjánda júní hátíðarhöldum stóð U.M.F.L. fyrst fyrir 1969 og síðan hafa þau verið haldin reglulega frá 1975 í samvinnu við Kvenfélag Laugdæla og Lionsklúbbs Laugardals.

Nútíma íþróttafélag.

Árið 1975 verða stakkaskipti hjá félaginu að því leyti að þá er fyrst farið að vera með reglulegar æfingar fyrir börn yngri en 14 ára. Fyrst í frjálsum og körfubolta og síðar í öðrum greinum. Félagið breyttist mjög mikið á þessum árum í að verða alvöru íþróttafélag. Þá er að segja frá helstu íþróttagreinum innan Laugdæla.

Körfuknattleikur: Árangur U.M.F. Laugdæla í körfuknattleik hefur verið afar góður. Í 35 ára sögu héraðsmóta H.S.K. hefur félagið orðið meistari 27 sinnum. Margir Laugdælingar hafa verið í liði H.S.K. og keppt með því á allmörgum landsmótum og í 1.deild. Bikarkeppni H.S.K hefur liðið unnið 15 sinnum af þeim 23 skiptum sem keppnin hefur farið fram. Nokkrir Laugdælir hafa náð þeim merka áfanga að hafa spilað með unglingalandsliðinu og vera valdir körfuknattleiksmenn ársins hjá HSK. Eitt sinn urðu fimm bræður HSK meistarar í körfu með Laugdælum sama árið en það voru synir Þorkells Bjarnasonar á Laugarvatni. Stærstu sigrar Laugdæla í körfuknattleik voru þegar félagið varð sigurvegari í 3.deild í íslandsmóti 1976 og unnu sig upp í 2. deildina 1983 og urðu íslandsmeistarar í annað sinn og árið 1984 kepptu Laugdælir í 1.deild og höfnuðu í öðru sæti. Besti árangur sem unglingaflokkur hefur náð er þegar Laugdælir unnu sig upp úr C-riðli í A-riðil og komust þá í úrslit í honum árið 1996 í drengjaflokki og höfnuðu í þriðja sæti. Ekki má gleyma kvennaliði félagsins en það hefur oft staðið sig ágætlega, meira að segja orðið héraðsmeistarar nokkrum sinnum.

Blak: Íþróttagrein sem Laugdælir hafa náð einum besta árangri í er blak. Allt fá 1974 þegar héraðsmót HSK í blaki karla hófst og til 1981 má segja að Laugdælir hafi einokað þessa grein á sambandssvæðinu og urðu HSK meistarar 7 sinnum á þessum árum. Í kringum 1971 tók félagið fyrst þáttí Íslandsmótinu og var oftast í öð´ru sæti á næstu árum. Anton Bjarnason var aðalhvatamaðurinn að blakinu og var þjálfari til 1976. 1979-1980 náði liðið toppnum. Árið 1979 urðu Laugdælir Íslandsmeistarar í blaki og sigruðu Stúdenta örugglega 3-0 í síðasta leik mótsins. Það var mikil stemning á Laugarvatni og litla íþróttahúsið þéttsetið svo að lá við að hangið væri í köðlunum (samanber Morgunblaðið 1979). Árið 1980 bættu Laugdælir svo um betur og urðu tvöfaldir sigurvegarar, Íslandsmeistarar og bikarmeistarar. Andinn og karakterinn í liðinu á þessum árum var mjög góður. Eitt besta dæmið um það var þegar Laugdælir léku til úrslita í bikarkeppninni 1980 við Þrótt. Vísir skrifar eftirfarandi um úrslitaleikinn: Laugdælir, U.M.F.L. urðu í gærkvöldi bikarmeistarar í blaki, er liðið sigraði Þrótt, og var leikið á Selfossi. Mikið fjölmenni var samankomið á áhorfendapöllunum er leikurinn hófst. Leikmenn U.M.F.L. komu þá fram á völlinn og hófu að grýta karamellum til áhorfenda og það var ekki að spyrja, þeir áttu húsið eftir það, (Vísir 16.apríl 1980) Hinn kunni blakmaður Leifur Harðarson blakmaður ársins 1980 þjálfaði og spilaði með liðinu þessi ár og átti hann mikinn þátt í árangri þess ásamt hinum landsliðsmönnum félagsins þeim Haraldi Geir Hlöðverssyni blakmanni ársins 1979, Hreini Þorkellssyni og Samúel Erni Erlingssyni. Laugdælir hafa einnig haft á að skipa kvennaliði og unglingaliði í blaki sem hafa staðið sig ágætlega. Síðastliðin ár hefur blak lítið verið stundað hjá félaginu. Síðast var blak stundað hjá árið 1997 en þá spilaði liðið í annari deild Íslandsmóts og hafði þá ekki verið á Íslandsmóti í rúmlega 10 ár.

Frjálsíþróttir: Það var ekki fyrr en upp úr 1975 að iðkun frjálsíþrótta fór að verða einhver að ráði. Fyrir þann tíma voru það aðeins tveir Laugdælingar sem létu eitthvað að sér kveða, Þorbjörn Pétursson var annar þeirra, hann varð þrefaldur HSK meistari 1946 í 100m hlaupi á tímanum 11,7 sek, 400 m hlaupi á tímanum 65,7 sek og langstökki, þar stökk hann 6,26m. Hinn var Þorsteinn Þorsteinsson sem áður er getið. Um 1975 eru æfingar reglulega hjá félaginu, á veturna og sumrin. Í fyrstu voru sendir fáeinir einstaklingar á helstu mót innan sambandsins, þá var Páll Ólafsson aðalkeppandi í eldri flokkum, hann keppti aðallega í hlaupum og náði það góðum árangri að hann var keppandi í bikarliði HSK og einnig á landsmótinu á Akranesi 1975 fyrir HSK. Síðar var farið að fjölmenna til keppni og árangurinn lét ekki á sér standa. Árið 1990 unnu Laugdælir framfarabikar HSK sem veittur er því félagi sem sýnir mestu framfarirnar á árinu í frjálsum. Besti frjálsíþróttamaðurinn í dag er Guðrún Bára Skúladóttir, hún er millivegalengdahlaupari og hefur unnið oft á stórmótum t.d. á Landsmótum og er hún HSK methafi í nokkrum millivegalengdahlaupum. Árlega er haldið þriggjafélagamót milli Laugdæla, Hvatar og Bisk. Bæði innan og utanhúss. Skiptast félögin á að halda þessi mót. Síðustu ár hafa Laugdælir verið nær ósigrandi og stafar það fyrst og fremst af góðu og öflugu unglingastarfi.

Glíma: Laugdælir fóru ekki að stunda glímuna af fullum krafti fyrr en 1985. Glímumönnum hefur gengið nokkuð vel og hafa Laugdælir einu sinni átt glímumann HSK og oft hafa Laugdælir verið valdir í lið HSK til að keppa á landsmælikvarða og staðið sig vel margir hafa orðið Íslandsmeistarar og grunnskólameistarar íslands. Einnig hafa þrír Laugdælingar verið valdir efnilegasti glímumaðurinn hjá Glímusambandi Íslands. Einn Laugdælingur hefur unnið hinn merka Skarphéðinsskjöld árin 1986 og 1987.

Aðrar íþróttagreinar: Skákæfingar eru haldnar einu sinni í viku og tekið er þátt í héraðsmótum HSK og hafa Laugdælir orðið HSK meistarar tvisvar sinnum í sveitakeppni í skák. Guðmundur Óli Ingimundarson hefur orðið skákmaður einu sinni. Laugdælir hafa tvisvar tekið þátt í héraðsmóti HSK í handknattleik og einu sinni í knattspyrnu. Í bridge kepptu Laugdælir með góðum árangri í kringum 1970 og urðu nokkrum sinnum HSK meistarar. Í borðtennis höfum við keppt nokkrum sinnum og sent keppendur á héraðsmót og höfum við einu sinni eignast HSK meistara í þeirri grein en það var 1989. Sund var aðalgrein félagsins 1945 til 1950 og áttum við þá marga keppendur á landsmótum, þær Áslaugu Stefánsdóttur og Ernu Þórarinsdóttur fremstar í flokki. Sundið hefur ekki verið mikið stundað síðan fyrr en nú að nokkrir ungir krakkar eru farnir að æfa sund af kappi. Seglbretti voru mjög vinsæl hér á milli 1980 og 1990 og áttum við meðal annars þrjá mjög góða seglbrettamenn sem voru í fremstu röð hér á landi og urðu meðal annars íslandsmeistarar. Fimleikar eru alveg ný grein hjá Laugdælum og eru nú um fimmtán krakkar að æfa fimleika frá því í fyrra haust. Á landsmótinu í Júdó á Akureyri 1981 áttu Laugdælir tvo keppendur þá Snæbjörn Sigurðsson og Guðmund Óla Ingimundarson sem gengu undir nafninu sjálfsmorðssveitin. Laugdælir hafa átt keppendur með landsliði Íslands í bakkhold og guren sem eru keltnesk fangbrögð stunduð í Englandi, Skotlandi og Frakklandi og hafa þeir staðið sig mjög vel.

Punktar úr ræðu fluttri á 90 ára afmæli UMFL 1998 lítið breytt janúar 2000.

Kjartan Lárusson