Góður árangur UMFL á Öldungamóti BLÍ í blaki

Helgina 28.-30. apríl síðastliðinn fór fram 37. Öldungamót Blaksambands Íslands á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Þar mættu 23 vaskir blakarar á vegum UMFL með tvö kvennalið og eitt karlalið.

Konurnar hafa verið duglegar að mæta í vetur og var nokkuð ljóst snemma vetrar að möguleiki væri á því að fara með tvö lið á Öldung eins og mótið er kallað. Laugdælur 1 kepptu í 7. deild í ár, en í fyrra unnu þær 8. deildina. Eftir að hafa tekið þátt í Íslandsmóti BLÍ í vetur var liðið orðið nokkuð samstillt og var þjálfarinn viss um að stoppið í 7. deildinni yrði stutt. Það er helst frá því að segja að Laugdælur 1 unnu alla sína leiki nema einn og urðu fyrir vikið í 2. sæti í 7. deildinni sem þýðir það að 6. deildin bíður þeirra að ári :)

Laugdælur 2 skipuðu byrjendur, nýbakaðar mæður, þær sem voru að stíga upp úr meiðslum sem og gamalreyndir refir og létu ekki sitt eftir liggja í mótinu. Voru þær skráðar inn í  mótið í 11. deild sem þjálfaranum fannst einni deild of lágt. Enda kom á daginn að Laugdælur 2 komu, sáu og sigruðu alla sína andstæðinga og töpuðu aðeins tveimur hrinum í öllu mótinu. Þær stóðu því uppi með gullið og bikarinn og verða í 10. deildinni að ári. Sannarlega góður árangur hjá báðum kvennaliðum UMFL.

Karlalið UMFL var skráð í 4. deildina á Öldungamótinu í ár, þrátt fyrir að gengið í fyrra hefði verið á þann veg að liðið hefði átt að vera í 5. deild. Var því fyrirfram búist við því að róðurinn gæti orðið erfiður fyrir karlana. Þeir notuðu hins vegar tímann í vetur vel og slípuðu sig saman með þátttöku í Íslandsmóti BLÍ þó svo að lítið bæri á sigrum í því móti. Uppspilarar liðsins voru hins vegar meiddir eða of ungir til þátttöku á öldungamótinu og því voru góð ráð dýr og einhver varð að „fórna sér“ og læra uppspilarastöðuna. Dæmdist þetta á þá Rúnar og Smára. Þeir hefðu kannski átt að huga að þessum möguleika fyrr í vetur en svo skemmtilega vildi til að piltarnir unnu fyrstu tvo leiki sína 2-0 og spiluðu því um efsta sæti riðilsins í síðari leikjum mótsins. Þar unnu þeir KA-Ölið 2-1 í skemmtilegum baráttuleik, en þeir rétt töpuðu fyrir þeim 1-2 í undanriðlinum. Verkís og Steinunn gamla reyndust strákunum erfiður ljár í þúfu og urðu úrslitin þau að karlalið UMFL varð í 4. sæti riðilsins, grátlega nærri 3. sætinu en voru með verra hrinuhlutfall en Verkís sem varð í 3. sæti. Sannarlega gott mót fyrir drengina og eykur vonandi sjálfstraust þeirra fyrir næsta tímabil.

Comments are closed.